Select Page
Tómasarlundur

Tómasarlundur

Vinir og samstarfsfólk Tómasar Magnúsar Tómassonar heitins, svo sem úr Stuðmönnum og Græna hernum, komu saman í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal í Reykjavík í gær þar sem opnaður var svonefndur Tómasarlundur. Austast og innst í garðinum góða hafa verið gróðursett fjögur tré í minningu Tómasar; tákn um bassastrengina fjóra sem Tómas lék fimlega á. Framan við trén er bekkur í litum regnbogans, sem minnir á fjölbreytileika mannlífsins.

Skógur og geðrækt
„Við ætlum á næstunni að rækta Tómasarlund um land allt, en verkefnið fléttar saman skógrækt og geðrækt. Látum til okkar taka á um tuttugu stöðum á landinu. Næst er að gróðursetja í nýjum Tómasarlundi við Hamar, nærri Borgarnesi. Þá munum við láta til okkar taka í Laugahlíð í Svarfaðardal, beint á móti bænum Völlum, en þaðan var Tómas ættaður. Þar þarf að taka til hendi.
Stærsti Tómasarlundurinn er hins vegar við Kjarnaskóg á Akureyri,“ segir Jakob.
Tómas Magnús Tómasson (1954-2018) var einn hugmyndasmiða Græna hersins og sá sem gaf honum nafn. Lund og skapgerð Tómasar var annáluð og laðaðist fólk jafnan að glaðlegu fasi hans, ljúflyndi, sagnagáfu og annáluðum skemmtilegheitum.
Hann var oft kallaður Bassaleikari Íslands og lék ekki aðeins með Stuðmönnum og Þursaflokknum heldur á fleiri hljóðritum en nokkur íslenskur tónlistarmaður hefur gert fyrr og síðar.
Þá stjórnaði hann upptökum á mörgum mest seldu hljómplötum á Íslandi. Nærtækt er þar að nefnda Vísnaplöturnar góðkunnu, sem seldust í bílförmum.
 
Fegrar, hreinsar og málar
Græni herinn ferðast um landið í sumar og gróðursetur, fegrar, hreinsar og málar. Markmið fimm ára áætlunar í starfinu er að fegra hringveginn og nærumhverfi hans til muna. Þegar hafa tugir tonnaaf járnarusli verið fjarlægð og haldið verður áfram á þeirri sömu braut í næstu framtíð.